Nú þegar Ljómalind er komin á sjötta ár hefur ýmislegt tekið breytingum frá upphafi.

Þó er sumt sem ekki breytist, við notum ekki plastpoka. Allar vörurnar okkar eru framleiddar á Vesturlandi.   Við viljum ekki umbúðir utanum vörurnar okkar, nema í undantekningartilfellum og þá ekki plast heldur pappír eða sellófan þar sem því verður við komið. Við viljum leggja okkar lóð á vogarskálarnar varðandi umhverfið, en margt smátt gerir eitt stórt eins og alkunna er. Talandi um umhverfisvernd þá felst hún líka í að minnka kolefnisspor, og það er mun betra fyrir samfélagið og umhverfið ef það þarf ekki að flytja vörurnar okkar langar leiðir, eða keyra eftir þeim. Því mælum við með því að versla í heimabyggð.

Við erum eins og kunnugt er orðið, farin að reka matarsmiðju hérna í Borgarnesi, hún fékk nafnið Matarlind, í stíl við Ljómalind. Það er vottað eldhús sem við komum í gagnið í samvinnu við SSV (samtök sveitarfélaga á vesturlandi). Þar getur fólk fengið aðstöðu til að prófa sig áfram með matvælaframleiðslu eða stundað smáframleiðslu. Þetta hefur farið vel af stað og greinilegt að það blunda margar hugmyndir í huga fólks hér.

Einnig erum við að vinna í að opna netverslun, en það er nauðsynlegt að viðskiptavinir okkar geti nálgast okkur einnig þar. Ekki síst í þeirri þróun sem er að verða í verslun og þjónustu. Við komum til með að senda út um allan heim jafnt og innanlands.

Við erum að fá inn fullt af jóladóti, jólaskraut, laufabrauðsdiska, kakóbolla og margt margt fleira. Endilega komið og kíkið við í versluninni, það verður tekið vel á móti ykkur.