Í byrjun árs 2013 kom saman hópur 12 kvenna af Vesturlandi og ákvað að stofna matar og handverksfélag, sem síðar hlaut nafnið Ljómalind. Markmið hópsins var að halda úti bændamarkaði þar sem hægt væri að koma á framfæri vörum úr héraðinu. Í samvinnu við Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi, Kaupfélag Borgfirðinga og Vaxtarsamning Vesturlands var mögulegt að opna markaðinn að Sólbakka þann 17. maí 2013.
Innréttingarnar hannaði arkitektinn Sigursteinn Sigurðsson í góðri samvinnu við félagsmenn, sem lögðu á sig mikla vinnu við innréttingu verslunarinnar. Öll hugmyndafræði félagsins byggir á sjálfbærni og það endurspegla innréttingarnar í versluninni. Vörubrettum var m.a. breytt í búðarborð og skápa og afgangstimbur úr Skorradal skreytir veggi og myndar hillur.
Það var svo 1. maí 2015 sem hópurinn flutti sig um set og er nú verslunin staðsett að Brúartorgi 4. Enn á ný var það arkitektinn Sigursteinn Sigurðsson sem hannaði rýmið og félagskonur lögðu fram mikla vinnu.
Mikill metnaður er rekstraraðilunum og nú er verslunin opin daglega allt árið um kring.
Sérstök og óháð matsnefnd sér um að velja inn vörur og þurfa allar vörur sem eru seldar að hljóta náð fyrir augum matsnefndar og með þeim hætti eru gæði vara tryggð. Eingöngu er tekið við vörum sem eru framleiddar af fólki sem býr á Vesturlandi og er því sannarlega um svæðisbundna verslun að ræða.
Ávallt er boðið upp á ýmiskonar smakk í versluninni, en einnig er hægt að panta heimsóknir fyrir hópa. Þá er einnig „smakk úr héraði“ seðill sem er frábær upplifun fyrir innlenda og erlenda ferðalanga. Mikil og góð reynsla er af slíkum heimsóknum og áhugasömum er bent á að hafa samband í síma 437-1400 eða með tölvupósti: ljomalind@ljomalind.is með að minnsta kosti viku fyrirvara.