Baldursbráin er blóm Vesturlands

Baldursbráin er blóm Vesturlands

Þar sem búið var að velja einkennisfugl Vesturlands, brandugluna, datt aðstandendum Ljómalindar í hug að einnig mætti velja einkennisblóm landshlutans. Þetta er meðal annars gert til að koma til móts við óskir erlendra ferðamanna sem vilja vita hvað er sérstakt við landshlutann okkar, og ef til vill hafa með sér dálitla minningu um hann í töskunni heim

ftir að hafa ráðfært sig við Markaðsstofu Vesturlands og Náttúrustofu Vesturlands, var sett upp einföld skoðanakönnun á fésbókarsíðu Ljómalindar í sumar. Þar sem tekið var við öllum ábendingum og hugmyndum. Tíu blóm voru tilnefnd og voru Hvönn, Mjaðjurt og Hrafnaklukka þar á meðal. Gleym-mér-ei varð að sætta sig við annað sætið því það fór svo að Baldursbráin fékk yfirgnæfandi meirihluta tilnefninga. Það er blómið sem flestir muna eftir að hafa plokkað í túttu á yngri árum, og hefur jafnvel gengið undir því nafni, "Túttublómið". Einn kjósandinn sagði svo réttilega að "Baldursbráin væri blóm barnanna og minninganna." Baldursbráin er þekkt lækningajurt við ýmsum kvillum og var þar af leiðandi einnig nefnd "fuðarurt" og "móðurjurt".

 

 

Aftur var lagst undir feld með áðurnefndum aðilum, Markaðsstofunni og Náttúrustofunni og samþykkt að afhenda brá Baldurs titilinn sem blóm Vesturlands. Nú er því tilvalið að nýta blómið til markaðssetningar og hönnunar á vörum frá Vesturlandi.

2014